Velkomin á vefsvæði Spilaklúbbsins Steingríms á alnetinu. Steingrímur er félagsskapur 5 ungra manna sem hafa einsett sér að hittast reglulega og auðga hugann með spilun þroskandi borðspila á við Risk, Scrabble, og Singstar. Ekki er enn ljóst hvaða tilgangi þessi vefsíða mun gegna en í versta falli mun ég reglulega birta pistla um það hve pirrandi það er að vera eini maðurinn á Íslandi sem kann að keyra kl. 8 á morgnanna.

31.1.05

Fyrsta spilakvöldið

Síðastliðið fimmtudagskvöld fór fram fyrsta spilakvöld Spilaklúbbsins Steingríms. Fór það fram á heimili undirritaðs. Tókst kvöldið með miklum ágætum þrátt fyrir að ekki hafi verið full mæting. Palli og Himmi mættu vígreifir til leiks. Palli reyndar frekar seint þar sem hann stóð í einhverjum klósettpappírsbisness og mætti á sendiferðabíl stútfullum af skeini. Ekki var hann fyrr kominn inn úr dyrunum en reynt var að koma upp á mann 300.000 rúllum af skeinipappír, eldhúsrúllum og servéttum. Eftir að mér tókst fimlega að leiða hjá mér sölumennskuna var hafist handa við spilamennskuna.
Spilið sem varð fyrir valinu var Risk og byrjaði minns frekar illa, lenti milli steins og sleggju ef svo mætti segja. Var um tíma svo komið að aðrir spilarar voru nánast búnir að afskrifa mig. Himmi náði strax góðum tökum á Afríku og Palli á Ástralíu sem hann hafði nota bene lýst yfir fyrir spilið að hann ætlaði að eigna sér og það væri best fyrir aðra að vera ekki að þvælast fyrir. Lá reyndar við grátri hjá Páli þegar Hilmar gerði fífldjarfa árás og hertók Ástralíu eins og hún leggur sig. Á meðan á átökum þeirra stóð stækkaði ég mitt litla veldi svo lítið bar á og náði undir mig Evrópu og hélt henni nokkra stund eða þar til Palli í asnaskap sínum réðst á mig og gerði þar með út um allar vonir um að gera Hilmari nokkra skráveifu en ítök hans á suðurhvelinu voru orðin ansi mikil. Hilmar réðst svo inn í N-Ameríku sem Palli hafði náð nokkrum tökum á og vildi Palli algerlega kenna teningunum um að það hafi tekist. Sjá mátti gufustrókanna standa út úr eyrum Páls þegar fór að líða á þá orustu. Þegar hér var komið sögu hafði ég safnað öllum mínum herjum í S-Evrópu og hugðist gera örvæntingafulla tilraun til að draga úr herafla Hilmars með því að ráðast inn í Afríku. Hann var hinsvegar fyrri til og réðst á mína menn og er ekki hægt að segja annað en að hann hafi beðið niðurlægjandi ósigur.
Varð það til að kveikja von í brjósti okkar Palla um að við gætum jafnvel sigrast á gulu ógninni. Réðst ég þá á Hilmar og tók af honum lönd í Afríku og S-Ameríku og virtist heimsveldi hans þá að hruni komið. En áður en við náðum að ganga milli bols og höfuðs á Hilmari tókst honum að klára sitt verkefni sem var að útrýma Páli.
Var ég nokkuð sáttur við mína frammistöðu undir lokin eftir hræðilega byrjun. Vil ég meina að Páll og Hilmar hafi tekið sig saman um að ráðast alltaf gegn mér í upphafi spils til að ég endurtaki ekki leikinn frá því er við fyrst spiluðum Risk, en þá eins og flestir muna valtaði ég yfir þá bræður. Bíð ég spenntur eftir næsta spilakvöldi og geri ég ráð fyrir að aftur verði spilað Risk því ég og Palli eigum harma að efna eftir þetta fyrsta kvöld og skora ég á aðra meðlimi klúbbsins að láta sig ekki vanta þá.

27.1.05

Magnað er það!

Einhvern Blogmóri komst í tölvuna mína og fjarlægði commentin, en ég held að þau séu komin aftur núna þannig að þá er bara að commenta á þennan póst með mætingu á spilakvöld í kvöld.


Neibb hafðist ekki sökum tímaleysis, en verður lagað við fyrsta tækifæri.

26.1.05

Fyrsta spilakvöldið

Á morgun, fimmtudag verður haldið fyrsta spilakvöld Steingríms. Fer það fram á heimili mínu og hefst klukkan 9 stundvíslega. Eins og hin óformlega samþykktu lög klúbbsins segja til um mun ég sjá fyrir gosi en öðrum limum er ætlað að koma með einhvers konar léttar veitingar að eigin vali. Ef menn vilja bjór verða þeir hins vegar að koma með hann sjálfir.
Vona ég að allir mæti og þetta verði kvöld til að muna eftir.

25.1.05

Kveðja frá Hrísey

Sælir félagar. Ég og aðrar skepnur höfum það bærilegt hér í Hrísey, fyrir utan að allt fuglalíf hér í eynni virðist hafa hrunið eftir komu mína af einhverjum óskliljanlegum ástæðum. Ég býst fastlega við að vera orðinn laus úr prísundinni fyrir fimmtudags aftan og mun því mæta svalur eins og hvalur til stofnfundsins ógurlega (þ.e.a.s ef Norðuleiðarútan stenst áætlun). Einnig renndi ég yfir Lög og ólög comrads Einars og styð þau heilshugar en þó með fyrirvara um breytingar hvar og hvenær sem er á meðan að mannskapurinn er með rænu. Um helgina varð ég fyrir þeirri frábæru lífsreynslu að verða vitni að Liverpool ósigri, og síðast en ekki síst stórsigri stórliðs Rauða djöflanna, þetta gladdi mitt litla hjarta gífurlega hér í einangrunar klefanum og jafnvel sólin tók sig til og skein í tilefni dagsins beint í augun á mér með tilheyrandi sólbruna og sjóntruflunum sem fylgdu í kjölfarið.

Kv Djúser í einangrun

Skál

24.1.05

Helgi hinna misjöfnu úrslita

Helgin hófst í Smáranum, meistaraflokkur vann ÍA (varð fyrir vonbrigðum með vin minn Alexander Ermolinskí) jákvæð úrslit, vann Pálma í 3-stiga keppni, 5 af 5 oní í bráðabana, jákvæð úrslit það, unnum Skallgrím í Borganesi með einu stigi úr víti eftir að leiktíminn var útrunninn, afar jákvætt, af þessum lestri að dæma mætti halda að ég hafi átt bara ansi góða helgi, en síðan fær maður úrslitin úr Liverpool leiknum og þá strokast öll góð úrslit út. Þetta er óþolandi hvað þetta lið getur verið mistækt. Alveg gersamlega óþolandi, það er eins gott að þeir nái 4. sætinu og verði búnir að taka sig saman í andlitinu næsta vetur þegar maður fer á Anfield (vonandi). Hlýtur að kosta skít á priki svona Anfield ferð í Köben. Fokk it nenni ekki að væla yfir þessu.

Annars langar mig að minnast á atvik sem ég varð vitni af um helgina og ég verð að segja að ég man ekki hvenær ég hló jafn mikið seinast. Á föstudagskvöld fór ég niðrí bæ með þeim Hjallabræðrum Pálma og Dodda. Við kíktum á Gaukinn þar sem var 18 ára aldurstakmark! Afgreiðslustúlkan tjáði mér að þrátt fyrir áhyggjur mínar um annað þá væri þetta alveg löglegt þar sem krakkarnir mættu ekki kaupa á barnum, my ass!!!, þetta er ekkert annað en unglingadrykkja, jæja skítt með það hvort þetta sé rétt eða rangt siðferðislega, ég er sennilega bara orðinn svona gamall, en það sem skiptir máli er að þetta eyðileggur algerlega staðinn fyrir mér! Við ætluðum að fara á Gaukinn þar sem alltaf er hægt að tylla sér í góðu tómi með öl við hönd og taka nokkra pool leiki á efri hæðinni. Það fór fjarri að við gætum það á föstudaginn. Þegar við loksins komumst inn eftir að hafa fylgst með ungri stúlku reyna að limlesta dyraverðina sem höfðu tekið af henni falsað skliríki (það þurfti 3 verði til að snúa hana niður) þá tók ekki betra við, það var bókstaflega maður við mann á allri efri hæðinni, allt einhver kids og einhverskonar andlitmálning í gangi við innganginn, þetta var eins og að koma inn á diskó á Ibiza (sem er ekki jákvætt þegar maður er að leita eftir rólegheita stemmningu yfir nokkrum pool leikjum) enda vorum við félagarnir fljótir að snúa við og kíktum á Roadhouse (áður Kapital, áður Thomsen) það var ekki alveg að gera sig enda 6 gestir inni (að okkur meðtöldum) og músíkin þanin svo hátt að blæddi úr eyrum viðstaddra. Æjá, best að fara að koma sér að sögunni fyndnu, jæja eftir að hafa kíkt á Ara snerum við aftur á Gaukinn til að hitta Max og Luke. Max er sá mesti útlendingasegull sem til er. Þrátt fyrir að hann hafi verið nánast ómálga af ölvun var hann búinn að kynnast einhverjum 6 útlendingum, þar af einum Glasgowbúa (sem b.t.w. hélt hvorki með Rangers eða Celtic heldur Iverness) sem settist hjá mér og Luke á neðri hæðinni, aðrir voru á einhverjum þvælingi um staðinn. En meðan við erum að spjalla þarna kemur að ung stúlka vel við skál sem ætlar að kveikja sér í rettu á sprittkerti sem stóð á borðinu. Hún beygði sig niður og á meðan hún var að reyna að samhæfa staðsetningu sígarettunnar og logans frá kertinu ýtti Glasgow ofaná hausinn á henni þannig að sígarettan sem var að verða tilbúinn til reykinga dýfðist ofaní vaxið. Eins og þið getið ímyndað ykkur varð daman ekki par ánægð með atburðarásina og reisti sig upp og starði á mig leitandi hatursfullu augnaráði og síðan á Skotann og einmitt meðan hún starði á mig kom Pálmi að borðinu og stóð fyrir aftan hana og eftir að hún hafði rannsakað mig og Skotann sneri hún sér við........tók þá ákvörðun að sá seki væri fundinn.......dúndraði í brjóstið á Pálma.........las honum pistilinn með þeim hætti að ekki verður haft eftir hér og strunsaði síðan burt! Ok, svipurinn á Pálma greyinu eftir að hún fór var ómetanlegur. Það mætti setja hann í orðtakabók undir "veit ekki hvaðan á sig stóð veðrið"! Þetta var svo fyndið að það var ekki laust við að ég brynnti músum. Það má alveg segja að þetta hafi bjargað helginni fyrir mér.

Einnig er að lokum vert að minnast á það fyrir áhugasama að stofnfundur Spilaklúbbsins fór ekki fram um helgina eins og ráðgert var, en Hilmar lagðist í fuglaflensu og var sendur til Hríseyjar í sóttkví og ekki er von á honum fyrr en á fimmtudaginn en stefnan hefur verið sett á að hafa hitting þá.

ps. Ef það er til hákarl heima hjá einhverjum látið mig vita því mér hefur verið tilkynnt að ef ég ætli að koma með þannig illa lyktandi viðbjóð heim muni verða búið að skipta um skrá á hurðinni.

20.1.05


Steingrímur? Posted by Hello

Þetta er alltsvo myndin sem átti að birtast með fyrstu greininni, djöfull er ég fljótur að læra!

Þetta er verndari Spilaklúbbsins Steingríms, sjálfur Tony Clifton og þess má geta að þetta er hinn eini sanni Tony Clifton, þ.e.a.s. þetta er ekki Jim Carrey í gervi Tony Clifton heldur er þetta mynd af sjálfum Andy Kaufman sem Tony Clifton, svona var gervið gott í alvörunni! Kaufman var snillingur. En Tony Clifton var meiri snillingur og hefur hér með verið skipaður verndari Steingríms og hlýtur heiðursnafnbótina Steingrímur. Þeir sem ekki vita hver Tony Clifton er eru vinsamlega beðnir um að skríða út úr helli sínum, út á Bónusvídeó (eða aðra sambærilega myndbandaleigu) og leigja Man on the Moon sem er snilld!

Lög Spilaklúbbsins Steingríms

Ég ætla hér að koma með drög að lögum fyrir spilaklúbbinn Steingrím, þetta er einungis mín hugmynd að lögum og er því öllum frjálst að koma með breytingartillögur og aðrar tillögur ef þeim sýnist svo, líka mega menn koma með tillögu um að engin lög verði sett og allsherjar stjórnleysi ríki innan Spilaklúbbsins. En hér koma mínar hugmyndir.

Stofnsáttmáli Spilaklúbbsins Steingríms (SSS)
  1. Markmið Spilaklúbbsins Steingríms er að treysta vináttubönd meðlima með heilbrigðri ástundun hinna ýmsustu spila. Spil þessi skulu eiga það sammerkt að þroska hugann og veita útrás fyrir hinar miklu gáfur sem innan spilaklúbbsins þrífast.
  2. Stefnt er að því að spilakvöld verði ekki haldin sjaldnar en einu sinni í mánuði og munu menn skiptast á að bera ábyrgð á skipulagningu kvöldanna. Sá sem ábyrgð ber á skipulagningunni útvegar húsnæði og kaupir óáfeng drykkjarföng. Hinir skulu allir koma með eitthvað ætilegt og er það undir þeim sjálfum komið hvað það er. Þeir sem vilja neyta áfengra drykkja útvega þá sjálfir.
  3. Páll Guðbrandsson verður æviráðinn formaður Spilaklúbbsins Steingríms.
  4. Árlega skal kosinn gjaldkeri sem fer með stjórn hinna digru sjóða klúbbsins. Páll Guðbrandsson verður ekki gjaldgengur þar sem hann myndi eyða öllum peningunum í fyllirí.
  5. Meðlimir greiða hóflegt mánaðargjald, sem standa á straum af hinni árlegu árshátíð félagsins auk hugsanlega öðrum viðburðum. (Ég var að hugsa kannski 500 kall)
  6. Áfengisneysla á samkomum Klúbbsins verður með öllu heimil, svo framarlega sem menn verða sér ekki til ævarandi minnkunar.
  7. Til að nýr meðlimur verði samþykktur í hópinn þarf samþykki allra gildra meðlima.
  8. Stofnmeðlimir Spilaklúbbsins Steingríms eru Páll Guðbrandsson, Einar Egill Halldórsson, Hilmar Hilmarsson, Gunnlaugur Róbertsson og Gunnar Aron Ólason.

P.S. Hver er djúser

Wunderbar

Já ég tek undir með síðasta ræðumanni.
Og tel ég að Spilaklúbburinn Steingrímur muni verða að heimsveldi
með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, hver man t.d. ekki eftir fightclub!
Ég vil óska sjálfum mér og öðrum félögum til hamingju með þetta frábæra
framtak til spilamenningarinnar.

Guðbrandssonurinn fær hér mitt atkvæði sem æviráðinn forystusauður þessa Klúbbs.

Hann lengi lifi.

Skál

Til hamingju!

Nú stefnir allt í Spilaklúbburinn Steingrímur verði formlega stofnaður næstkomandi föstudagskvöld. Klúbburinn hefur verið í burðarliðnum í nokkurn tíma núna og því við hæfi að óska öllum aðstandendum hans til hamingju nú þegar hin merku tímamót virðast óumflýjanleg. Leitt er þó að hafið hefur lokkað í burtu hann Gulla, einn af stofnmeðlimum Klúbbsins en mun vonandi skila honum aftur með vorinu.
Legg ég til að Páll Guðbrandsson, aðalhvatamaðurinn að stofnun þessa félags verði æviráðinn sem formaður Félagsins. Hann hefur verið óstöðvandi í viðleitni sinni til að koma þessu á fót og á heiður skilið fyrir þessa glæsilegu heimasíðu sem hann hefur komið upp hér.

Vil ég að lokum hrópa ferfallt húrra fyrir Spilaklúbbinum Steingrími.

Húrra, Húrra, Húrra, Húrra.

Fyrstu skrefin

Jæja þá stígur maður fyrstu skrefin í bloggheimi alnetsins. "Sjá síða er fædd, sem mun koma til að dæma lifendur og dauða!" segir í guðspjallinu. En þessi skref mín inn í gervihnattaöld eru ekki ætluð til eigin framdráttar, heldur til að auka hróður og samskipti innan Spilaklúbbsins Steingríms sem við félagarnir höfum haft í farvatninu síðustu mánuði. Upphaflega vorum við 4 sem unnum að hugmyndinni sem varð til vegna þess hve gríðarlega vel kærustur þriggja okkar virtust skemmta sér í sínum svokölluðu "saumaklúbbum".
Forviða reyndum við að skilja hvað gengi á í þessum klúbbum, var saumað? hvernig kom allur þessi matur til? Voru saumuð ílát undir matinn? hvað gekk þarna á? Eftir að hafa reynt ítrekað að komast til botns í þessu tók ég mig til og spurði mína ektakonu Guðnýju nánar útí þetta. Eftir að hafa meðtekið sannleikann bak við saumaklúbbana og rætt hann við Einar var tekin ákvörðun um að stofna Spilaklúbb til að félagarnir myndu örugglega hittast reglulega. Enda eru menn komnir til vits og ára........jah alla vega ára og orðið erfiðara að hittast allir.
Þannig kom hugmyndin að Steingrími til. Upphaflega voru 4 á bakvið þetta: ég, Einar, Gulli og Himmi. Síðan tekur Gulli skyndilega upp á því að skella sér á sjó á Hornafirði þar sem hann kúrir næturlangt í faðmi tengdaföður síns og voru þá góð ráð dýr og Gunnari Aron (þekktur sem Aron) boðin innganga. Það eru því 5 félagar sem stendur og markmiðið er að hittast visst oft í mánuði og spila einhver spil hæfandi jafn gáfuðum mönnum og hér eru saman komnir. Þessi síða verður því málgagn Spilaklúbbsins Steingríms auk þess sem meðlimir hans munu jafnvel viðra skoðanir sínar um menn og málefni, bændur og búalið auk alls þess sem þeim kann að liggja á hjarta. Þetta verður því einnig einskonar bloggsíða fyrir okkur í hópnum sem ekki eru færir um að halda úti slíkri síðu uppá okkar einsdæmi auk þess sem tilkynningar um og helstu úrslit af spilakvöldum okkar verða birt.
Fylgist því með þessu næsta stóra fyrirbæri sem er að renna úr vör og hefur þegar verið líkt við .com sprengjuna !

Ekki er hægt að lýsa Spilaklúbbnum Steingrími í orðum, en ef það er hægt í myndmáli þá væri hann c.a. svona.......


 

Free Web Site Counter