Fyrsta spilakvöldið
Síðastliðið fimmtudagskvöld fór fram fyrsta spilakvöld Spilaklúbbsins Steingríms. Fór það fram á heimili undirritaðs. Tókst kvöldið með miklum ágætum þrátt fyrir að ekki hafi verið full mæting. Palli og Himmi mættu vígreifir til leiks. Palli reyndar frekar seint þar sem hann stóð í einhverjum klósettpappírsbisness og mætti á sendiferðabíl stútfullum af skeini. Ekki var hann fyrr kominn inn úr dyrunum en reynt var að koma upp á mann 300.000 rúllum af skeinipappír, eldhúsrúllum og servéttum. Eftir að mér tókst fimlega að leiða hjá mér sölumennskuna var hafist handa við spilamennskuna.
Spilið sem varð fyrir valinu var Risk og byrjaði minns frekar illa, lenti milli steins og sleggju ef svo mætti segja. Var um tíma svo komið að aðrir spilarar voru nánast búnir að afskrifa mig. Himmi náði strax góðum tökum á Afríku og Palli á Ástralíu sem hann hafði nota bene lýst yfir fyrir spilið að hann ætlaði að eigna sér og það væri best fyrir aðra að vera ekki að þvælast fyrir. Lá reyndar við grátri hjá Páli þegar Hilmar gerði fífldjarfa árás og hertók Ástralíu eins og hún leggur sig. Á meðan á átökum þeirra stóð stækkaði ég mitt litla veldi svo lítið bar á og náði undir mig Evrópu og hélt henni nokkra stund eða þar til Palli í asnaskap sínum réðst á mig og gerði þar með út um allar vonir um að gera Hilmari nokkra skráveifu en ítök hans á suðurhvelinu voru orðin ansi mikil. Hilmar réðst svo inn í N-Ameríku sem Palli hafði náð nokkrum tökum á og vildi Palli algerlega kenna teningunum um að það hafi tekist. Sjá mátti gufustrókanna standa út úr eyrum Páls þegar fór að líða á þá orustu. Þegar hér var komið sögu hafði ég safnað öllum mínum herjum í S-Evrópu og hugðist gera örvæntingafulla tilraun til að draga úr herafla Hilmars með því að ráðast inn í Afríku. Hann var hinsvegar fyrri til og réðst á mína menn og er ekki hægt að segja annað en að hann hafi beðið niðurlægjandi ósigur.
Varð það til að kveikja von í brjósti okkar Palla um að við gætum jafnvel sigrast á gulu ógninni. Réðst ég þá á Hilmar og tók af honum lönd í Afríku og S-Ameríku og virtist heimsveldi hans þá að hruni komið. En áður en við náðum að ganga milli bols og höfuðs á Hilmari tókst honum að klára sitt verkefni sem var að útrýma Páli.
Var ég nokkuð sáttur við mína frammistöðu undir lokin eftir hræðilega byrjun. Vil ég meina að Páll og Hilmar hafi tekið sig saman um að ráðast alltaf gegn mér í upphafi spils til að ég endurtaki ekki leikinn frá því er við fyrst spiluðum Risk, en þá eins og flestir muna valtaði ég yfir þá bræður. Bíð ég spenntur eftir næsta spilakvöldi og geri ég ráð fyrir að aftur verði spilað Risk því ég og Palli eigum harma að efna eftir þetta fyrsta kvöld og skora ég á aðra meðlimi klúbbsins að láta sig ekki vanta þá.