Velkomin á vefsvæði Spilaklúbbsins Steingríms á alnetinu. Steingrímur er félagsskapur 5 ungra manna sem hafa einsett sér að hittast reglulega og auðga hugann með spilun þroskandi borðspila á við Risk, Scrabble, og Singstar. Ekki er enn ljóst hvaða tilgangi þessi vefsíða mun gegna en í versta falli mun ég reglulega birta pistla um það hve pirrandi það er að vera eini maðurinn á Íslandi sem kann að keyra kl. 8 á morgnanna.

29.9.05

Einar XRW

Já þá er það staðfest, Einar kominn í átak og hef ég tekið að mér að koma garpnum í flott form.
En Einar hefur æft stíft seinustu 2 vikur undir gjöfulli leiðsögn minni og það kom berlega í ljós í gær að árangurinn lét ekki á sér standa. En í gærkveldi mætti Einar XRW í fyrsta sinn í Taek kwon do tíma ásamt smá lyftingar sessioni og viti menn, sláandi niðurstöður kappinn hafði misst HEILT KÍLÓ eftir spriklið. Spurning hvort um vökvatap var að ræða skal ósagt látið. En þið sem þekkið Einar vitið að um stóran og sterkan strák er að ræða, það kom mér því skemmtilega á óvart hversu garpurinn var liðtækur í hinni fornri sjálfsvarnarlist TAEK KWON DU eða DO? Má segja að hann hafi farið hreint á kostum í gær og sparkað í mann og annan með þeim árangri að undrun sætti og steinlá hann í sumum tilfellum sjálfur í gólfinu þó ekki hrykki mótherjinn mikið við, slík var baráttugleðin í drengnum. Ég mun reyna að birta myndir af árangri XRW eftir því sem komið verður við. þ.e.a.s þegar ég læri að setja inn myndir á þessa blogg síðu ;-)

En af öðru fyrr á þessu ári ösnuðumst ég og XRW títtnefnur að heita á Pál nokkurn Gíraffa Guðbrandsson ókeypist flug og miða á Liverpoolleik í apríl næstkomandi, ef hann yrði reyklaus þangað til. Og er nú illt í efni, drengurinn virðist vera að standa sig í þessu veðmáli og útlit fyrir að við þurfum að punga út miklum fjárhæðum nú í apríl. Ég vil því biðja alla þá sem þekkja The Giraf að gefa honum sígarettu og ekki væri verra ef næðust myndir af athæfinu. En þess ber að geta að kappinn er nú staddur hér á klakanum í smá fríi frá Námi sínu í Danmörku. Er því tilvalið að sem flestir nálgist hann og bjóði honum smók á meðan hann er á klakanum.

Er svo ekki farinn að koma tími á eins og eitt gott spilerí ????

Skál og lifið heil.

Margur telur mig svið!

23.9.05

Ofur tissjú skammtarar

Sælinú!

Þar sem enginn annar virðist skrifa inn á þessa síðu verð ég víst að halda uppi fjörinu.
Hér í VR-II eru komnir sjálvirkir tissjú skammtarar á klósettin. Þeir virka þannig að maður veifar hendinni fyrir framan þá og hókus pókus hann ælir út úr sér passlega stórum tissjúskammti til að þurrka svo sem eins og tvær staðal stærðar hendur. Ég veit svo sem ekki hvað var að gömlu þurrkustöndunum þar sem maður togaði bara í og fékk þá eins og eina þurrku og ef maður var mjög blautur gat maður togað aftur og fengið aðra. Ég er farinn að hallast að því að menn vilji setja rafmagnsskynjaraelement í alla skapaða hluti bara út af því að það er hægt sama hvort það skilar einhverju eða ekki.

22.9.05

Markmiðinu er náð, Einar er orðin 100 kg

Í síðustu viku ákvað ég að vömbin væri orðinn í það stærsta og keypti mér kort í Háskólaræktina. Þar hef ég verið duglegri en ég hef nokkurn tíma verið áður og hef mætt daglega og svitnað blóði.
Eini árangurinn af þessari vitleysu er að í gær er ég steig á vigtina blikkuðu öll aðvörunarljós, Einar var kominn í þriggja stafa tölu. Ég hefi áður komist hættulega nærri markmiðinu en þó hæst farið 99,5 kg þegar ég hef verið vigtaður.
Þrátt fyrir að þetta hafi verið yfirvofandi um langan tíma þá var þetta mér mikið áfall og sá ég fram að ef ekki yrði gripið hraustlega í taumana yrði ég fyrr en varir orðinn á stærð við föður minn, þeir sem til þekkja vita að hann er stór maður.
Ég hef því ákveðið að nú gangi þetta ekki lengur. Ég ætla að fara að drekka Léttmjólk. Palli ætti að vita manna best að þetta er mér ekki auðveld ákvörðun, stríðir í raun gegn grundvallarlífsviðhorfi mínu.
Auk Léttmólkurinnar ætla ég að hætta að borða nammi nema á laugardögum og borða meira grænmeti. Þar að auki mun ég halda áfram spriklinu og fara í Tæ Kvon Dó með Himma á miðvikudögum og föstudögum.
Ef þetta dugir ekki til að koma mér niður í viðunandi þyngdir þá gefst ég upp og kaupi mér LazyBoy og sest fyrir fram sjónvarpið með Kók og Prins og Franskar sem synda í Kokteilsósu og margt fleira óhollt og fer að njóta þess að hafa vinalegt lag utan á mér og hætti að hlusta á alla þessa vitleysu um að feitt sé ekki fallegt.
Varðandi spilamennskuna þá þýðir þetta aðeins að ég mun herja á ykkur af enn meiri þunga. Árangri síðasta spilakvelds verður fylgt eftir.

8.9.05

Úrslit liggja fyrir!

Þá er það ljóst, Garon hefur verið felldur í fyrsta skipti. Einar sýndi loksins hvað í honum býr er hann lagði Gunnar Aron og Hilmar að velli í æsispennandi viðureign í gærkveldi.

Taugaspennan lá í loftinu þegar spilakvöldið átti að hefjast klukkan 8. Hilmar mætti á sínum fjallabíl en virtist ekki alveg vita hvort hann ætti að voga sér inn heldur sat í bíl sínum og þóttist tala í símann í um tíu mínútur. Aron tilkynnti að hann yrði seinn fyrir, hefur eflaust þurft að telja í sig kjark.
Hilmar mætti með poka af Nóa Kroppi og tvo kalda að venju og Aron með poka af ágætis snakki sem ég kann ekki að nefna. Á boðstólum húsráðanda var Appelsín og Kók en þar sem Hilmar hélt sig við ölið þá var Appelsínið látið duga.

En þá að leiknum. Strax í byrjun tryggði Aron sér Ástralíu sem hann hélt allt spilið utan einnar árásar Himma um miðbik spilsins sem var hrundið strax í næstu umferð. Hilmar náði Ameríkunum báðum en náði aldrei að halda þeirri Nyrðri heila umferð en fékk að hafa þá syðri í friði allt spilið. Einar náði undir sig Afríku en fékk ekki mikinn frið þar og var Aron með sérstaklega mikið vesen í því sambandi.
Í eitt skiptið sem Hilmar hafði náð allri Norður-Ameríku á sitt vald fékk Einar þrjár fallbyssur og skundaði með her sinn inn í Alaska og tók einnig Nordvestterretoriet og skildi þar eftir þónokkurn liðsafla. Þetta olli því að Hilmar sá sér þann kost vænstan að gefast upp á þeirri heimsálfu og tók ábendingu Einars um að snúa sér frekar að Evrópu.
Á meðan á þessu stóð var Aron farinn að gera sig ansi breiðan í Asíu og óttaðist Einar á tímabili að Verkefni Arons væri að ná Ástralíu og Asíu en seinna kom á daginn að svo var ekki.
Er svo kom að Einari átti Aron Asíu og Ástralíu og Hilmar Suður-Ameríku og Evrópu á meðan hann sjálfur átti aðeins Afríku. Átti Einar á þessum tímapunkti þrjú spjöld sem öll voru tindátar sem gefur aðeins fjóra aukakalla. Staða Einars virtist því ekki vera sterk en hann nýtti sér aðstæður til hins ítrasta skipti spjöldunum og setti alla sína kalla á Norður-Ameríku þar sem Hilmar var orðin veikur fyrir eftir að hann snéri athygli sinni í átt til Evrópu. Öllum varð þá ljóst að Verkefni Einars var að ná Afríku og Norður-Ameríku.
Einar hóf stórsókn og lagði í snarhasti undir sig öllu lönd álfunnar nema Mellemamerika en þar hafði Hilmar álitlegan her til umráða. Fóru þá í hönd nokkur taugatrekkjandi teningaköst þar sem Einar hafði betur að lokum og hafði þá lokið verkefni sínu og þar með unnið verðskuldaðan sigur. Ljóst má þó vera að hefði Einari ekki tekist ætlunaverk sitt í þessari umferð þá hefði framtíð hans verið í mikilli hættu.
Vill Einar þakka sigur sinn því að Palli var ekki með þar sem hann hefur þann sið að beita sér af öllu afli gegn Einari um leið og hann telur hann hafa gert eitthvað á sinn hlut, og virðist bræði hans beinast í meira mæli gegn Einari en öðrum.

Þakka þeim er hlýddu

 

Free Web Site Counter