Velkomin á vefsvæði Spilaklúbbsins Steingríms á alnetinu. Steingrímur er félagsskapur 5 ungra manna sem hafa einsett sér að hittast reglulega og auðga hugann með spilun þroskandi borðspila á við Risk, Scrabble, og Singstar. Ekki er enn ljóst hvaða tilgangi þessi vefsíða mun gegna en í versta falli mun ég reglulega birta pistla um það hve pirrandi það er að vera eini maðurinn á Íslandi sem kann að keyra kl. 8 á morgnanna.

19.2.05

Spilakvöld # 4 - Úrslit



Já það fór eins og flestir vissu, Garon reið feitum hestum yfir álfur og lönd. Ég sigraði semsagt andstæðinga mína sem voru að þessu sinni Páll formaður og Hilmar bjórmaður. Einar afboðaði áður boðaða komu sína og hafði formaðurinn það á orði að þetta hlyti að fara beint fyrir aganefndina sem starfar mjög leynilega því að enginn veit hverjir eru nefndarmenn og enginn hefur séð til funda hennar. Einar er því í mjög vondum málum og gæti átt von á því að svartur, númerslaus sendibíll aki hratt upp að honum þar sem hann er að rogast með innkaupapoka heim úr kjörbúðinni fulla af hveiti og lyftidufti, menn hrifsi hann inn í bílinn og taki hann til gjörðar.

En það breytir því ekki að ég vann rimmuna. Var ég búinn að minnast á það? Jæja ef ég var ekki búinn að því þá geri ég það hér með. Ég fékk missionið að ná Ástralíu og Norður-Ameríku. Ég náði að leyna því nokkuð vel því að andstæðingar mínir svömluðu saklausir á feigðarósi allt fram á síðustu stundu. Himmi var mér ansi erfiður ljár í þúfu í Suður-Asíu og Ástralíu er ég herjaði þar. Eftir að ég náði því svæði af honum lét hann reiði sína bitna á Evrópu sem ég hafði slegið eign minni á nánast frá byrjun. But little did he know því að þegar hann gerði mér þessa skráveifu var ég að sjá fyrir endann á missjoninu og kom það því ekki að eins mikilli sök eins og hann óskaði. Palli var nokkuð veikur framan af en var svo sannarlega að vinna sig upp þegar síðasti spretturinn var að fara í hönd. Ég held að ef ég hefði ekki klárað þetta mission mitt í þeirri umferð sem ég gerði það þá væri einhver annar en ég að skrifa sigurpistil. Og þó, hver veit?

Góðar stundir.


16.2.05

Ég spyr

Hvað er að frétta pungar? Ég var að frétta það að ég er einn heima í kvöld, eigum við að taka rimmu?

Spilakvöld # 3 Úrslit!

Spilakvöld # 3 var haldið hátíðlega þann 11 febrúar og mjög stundvíslega þ.e.a.s. kl 20:30 heima hjá Formanninum. Þar voru mættir Formaðurinn (ótrúlegt en satt), Himmz á slaginu en Einar mætti svo 20 mín seinna án allra húsmæðralegra tilburða. þ.e. enginn heimabakstur í
þetta skiptið og upplifði mikla skömm og ávítur fyrir þann dónaskap. Aron er hinsvegar ekki enn mættur!
Spilað var hið ágæta spil Risk og sett var heimsmet í spilaklúbbi Steingríms með því að spila tvær rimmur af þeim hressandi leik sama kveldið. Það vildi nebbnilega svo vel til að rétt eftir að spilið var byrjað hafði undirritaður náð takmarki sínu sem var s-amerika og asía (að mig minnir) og þar af leiðandi slegið mótherja sína þvílíkt utanundir með herkænsku sinni og útaf laginu að annað eins hefur ekki sést. Eftir að persónulegri teningaárás formannsins (sem gerði álíka mikinn skaða og köst hans í leiknum sjálfum = No Damage) á sigurvegarann var lokið og ró farinn að færast yfir mannskapinn var afráðið að grípa í aðra rimmu sem endaði á sama hátt með því að undirritaður lagði hver landið eftir öðru undir fót og uppskar Ástralíu ( sem fór alveg með formanninn enda hans mottó að eiga þann landskika alltaf ávallt og allstaðar), Afríku og Asíu sem dugði til sigurs. Þó seinni rimman stæði aðeins lengur yfir og var í heildina litið jafnari þá sáu grey drengirnir aldrei til sólar og vissu yfirleitt ekkert hvað þeir væru að reyna eða ættu að gera í spilinu. Það er Því nokkuð ljóst að HERSHÖFÐINGI VIKUNNAR ER HIMMZ. OG Fór Hann Létt MEð ÞAð. Ég lýsi hér með eftir smá challenge frá spilafélögum mínu á komandi spilakvöldum því þetta fer að verða leiðinlegt til lengdar að vinna alltaf ;´)
Lifið Heil
Skál

8.2.05

Nýtt af nálinni...þannig séð

Setti inn annað commentakerfi. Aðallega vegna þess að mér finnst hitt ömurlegt, tók það þó ekki út. Sjáum til hvernig þetta þróast.

7.2.05

Úrslit spilakvölds #2



Jájájájá, ég er Riskmeistari vikunnar og hafði ekki mikið fyrir því. 4 heiðursmenn mættu en formaðurinn beið mikinn álitshnekki áður en kvöldið byrjaði formlega með því að mæta, ekki of seint, heldur gjööörsamlega ólíðandi seint!!! En hvað um það, þessu er ekki viðbjargandi. Einar bjargaði því sem bjarga varð með því að koma með vínarbrauð.

Við spiluðum semsagt Risk og ég fékk það mission að ná Suður-Ameríku, Evrópu og svo þriðju heimsálfu að eigin vali. Himmi varð fyrir því óhappi að verða á vegi mínum og hlaut hann mikinn skaða af og náði sér eiginlega aldrei eftir rimmu okkar í byrjun spils. Páll hélt uppteknum hætti og sló eign sinni á Ástralíu í upphafi spils og einbeitti sér að því að halda þeirri álfu hvað sem á dundi. Að eiga Ástralíu var eiginlega það eina sem hann gerði allt spilið, hann var fyrst að ná sér á eitthvert strik þegar ég var um það bil að klára missionið mitt. Einar fékk að eigin sögn lélega gjöf í byrjun og urðu hans örlög að reyna að eignast Evrópu sem mig minnir að hann hafi ekki náð að halda henni eina einustu umferð þannig að hann var aldrei nein veruleg ógn.

Læt ég þetta duga að sinni en minni fólk að sjálfsögðu á að endurnýja áður en það verður um seinan.

2.2.05

Spilkvöld #2

Það gleður mig að tilkynna það að commenta kerfið er nú aftur virkt þannig að við getum nú ásamt gestum og gangandi veitt okkar álit á þeim póstum sem hér eru birtir.


Næsta mál á dagskrá er þá annað spilakvöld klúbbsins. Eftir að hafa rætt við alla meðlimi á höfuðborgarsvæðinu hafa tekist samningar um að hittast annað kvöld, þ.e.a.s. fimmtudagskvöld. Mun hittingur sá eiga sér stað heima hjá mér í Drápuhlíðinni. Þar sem ég er í fullu starfi sem þjálfari hins óviðjafnanlega 1. flokks Breiðabliks (allir kíkja þar á umfjallanir mínar um leikina) í körfubolta mun spilakvöldið hefjast ca. 21:20 þar sem útihlaup og þrekæfingar 1. flokksins hittast á sama tíma. Fyrrgreindar reglur um drykkjarföng og meðlæti verða í gildi og snyrtilegs klæðnaðs er krafist þar sem spiladúkurinn sem klúbburinn fjárfesti í fyrir nokkru verður vígður opinberlega í fyrsta sinn.


Gott væri ef meðlimir myndu formlega boða komu sína með þar til gerðum "commentum" til að draga úr símakostnaði klúbbfélaga og raunprófa að kerfið virki.


Einnig vil ég minna alla sem kíkja á þessa síðu að skrifa í gestabókina sem er staðsett fyrir neðan könnunina. Þar stendur til skiptis "Click here" sem útleggst á íslensku sem "Ýtið hér" og "Sign my guestbook" sem er einmitt útlenska sem þýðir "Skrifið í gestabókina mína".

Páll Guðbrandsson
Formaður Spilaklúbbsins Steingríms

 

Free Web Site Counter