Velkomin á vefsvæði Spilaklúbbsins Steingríms á alnetinu. Steingrímur er félagsskapur 5 ungra manna sem hafa einsett sér að hittast reglulega og auðga hugann með spilun þroskandi borðspila á við Risk, Scrabble, og Singstar. Ekki er enn ljóst hvaða tilgangi þessi vefsíða mun gegna en í versta falli mun ég reglulega birta pistla um það hve pirrandi það er að vera eini maðurinn á Íslandi sem kann að keyra kl. 8 á morgnanna.

8.9.05

Úrslit liggja fyrir!

Þá er það ljóst, Garon hefur verið felldur í fyrsta skipti. Einar sýndi loksins hvað í honum býr er hann lagði Gunnar Aron og Hilmar að velli í æsispennandi viðureign í gærkveldi.

Taugaspennan lá í loftinu þegar spilakvöldið átti að hefjast klukkan 8. Hilmar mætti á sínum fjallabíl en virtist ekki alveg vita hvort hann ætti að voga sér inn heldur sat í bíl sínum og þóttist tala í símann í um tíu mínútur. Aron tilkynnti að hann yrði seinn fyrir, hefur eflaust þurft að telja í sig kjark.
Hilmar mætti með poka af Nóa Kroppi og tvo kalda að venju og Aron með poka af ágætis snakki sem ég kann ekki að nefna. Á boðstólum húsráðanda var Appelsín og Kók en þar sem Hilmar hélt sig við ölið þá var Appelsínið látið duga.

En þá að leiknum. Strax í byrjun tryggði Aron sér Ástralíu sem hann hélt allt spilið utan einnar árásar Himma um miðbik spilsins sem var hrundið strax í næstu umferð. Hilmar náði Ameríkunum báðum en náði aldrei að halda þeirri Nyrðri heila umferð en fékk að hafa þá syðri í friði allt spilið. Einar náði undir sig Afríku en fékk ekki mikinn frið þar og var Aron með sérstaklega mikið vesen í því sambandi.
Í eitt skiptið sem Hilmar hafði náð allri Norður-Ameríku á sitt vald fékk Einar þrjár fallbyssur og skundaði með her sinn inn í Alaska og tók einnig Nordvestterretoriet og skildi þar eftir þónokkurn liðsafla. Þetta olli því að Hilmar sá sér þann kost vænstan að gefast upp á þeirri heimsálfu og tók ábendingu Einars um að snúa sér frekar að Evrópu.
Á meðan á þessu stóð var Aron farinn að gera sig ansi breiðan í Asíu og óttaðist Einar á tímabili að Verkefni Arons væri að ná Ástralíu og Asíu en seinna kom á daginn að svo var ekki.
Er svo kom að Einari átti Aron Asíu og Ástralíu og Hilmar Suður-Ameríku og Evrópu á meðan hann sjálfur átti aðeins Afríku. Átti Einar á þessum tímapunkti þrjú spjöld sem öll voru tindátar sem gefur aðeins fjóra aukakalla. Staða Einars virtist því ekki vera sterk en hann nýtti sér aðstæður til hins ítrasta skipti spjöldunum og setti alla sína kalla á Norður-Ameríku þar sem Hilmar var orðin veikur fyrir eftir að hann snéri athygli sinni í átt til Evrópu. Öllum varð þá ljóst að Verkefni Einars var að ná Afríku og Norður-Ameríku.
Einar hóf stórsókn og lagði í snarhasti undir sig öllu lönd álfunnar nema Mellemamerika en þar hafði Hilmar álitlegan her til umráða. Fóru þá í hönd nokkur taugatrekkjandi teningaköst þar sem Einar hafði betur að lokum og hafði þá lokið verkefni sínu og þar með unnið verðskuldaðan sigur. Ljóst má þó vera að hefði Einari ekki tekist ætlunaverk sitt í þessari umferð þá hefði framtíð hans verið í mikilli hættu.
Vill Einar þakka sigur sinn því að Palli var ekki með þar sem hann hefur þann sið að beita sér af öllu afli gegn Einari um leið og hann telur hann hafa gert eitthvað á sinn hlut, og virðist bræði hans beinast í meira mæli gegn Einari en öðrum.

Þakka þeim er hlýddu

 

Free Web Site Counter