Velkomin á vefsvæði Spilaklúbbsins Steingríms á alnetinu. Steingrímur er félagsskapur 5 ungra manna sem hafa einsett sér að hittast reglulega og auðga hugann með spilun þroskandi borðspila á við Risk, Scrabble, og Singstar. Ekki er enn ljóst hvaða tilgangi þessi vefsíða mun gegna en í versta falli mun ég reglulega birta pistla um það hve pirrandi það er að vera eini maðurinn á Íslandi sem kann að keyra kl. 8 á morgnanna.

30.12.05

Afsökunarbeiðni - Yfirbót

Afsakið félagar Steingrímar. Ég var bara ekki með á nótunum, feilnóta í 12. sinfóníu Garons, ópus 29. Landhornaflakk setti strik í reikninginn ásamt almennri viðutanmennsku.

Ég stefni á að halda spilakvöld 2., 3. eða 4. jan til að reyna að endurheimta virðingu félaganna. Þetta mun verða viðhafnarspilakvöld svokallað. Formaðurinn heldur ræðu. Litríkur fatnaður stranglega bannaður, aðeins svart og hvítt leyft. Einnig er mælt með því að menn noti ermahnappa ef kostur er, hvort sem þeir eru í skyrtu eða ekki. Þeir sem mæta í hnésokkum mega búast við að verða vísað út. Fimmaurabrandarar skulu notaðir í hófi. Ef reglur eru eitthvað óljósar skal vísað í reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 993/2004 um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu. Um brot á reglum þessum fer eftir hegningarlögum, lögum um meðferð opinberra mála, lögum um framkvæmd samnings um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla og um eyðingu þeirra og öðrum landslögum, eftir því sem við á.

Óskað er eftir tillögum að nákvæmari dagsetingu af þessum þremur sem í boði eru, einnig er óskað eftir almennum umræðum um komandi spilakvöld og nánari framkvæmd þess.

 

Free Web Site Counter