"Já það hefur verið löng leiðin á toppinn fyrir Pál Guðbrandsson. Þrátt fyrir að vera stofnfélagi og æviráðinn formaður Spilaklúbbsins Steingríms hefur mér sóst erfiðlega að öðlast virðingu félaganna. Lánið lék ekki við mig í sumar og þrátt fyrir skemmtilegan sóknarleik tókst mér ekki að hafa sigur á einu einasta spilakvöldi í sumar. Þar sem aðrir menn hefðu fengið hughreystingu og hvatningu fékk ég ekkert annað en háð og spott, auk þess sem kappssemi mín var túlkuð sem einhvers konar "tapsæri". Hver hefur ekki lent í því að hrista tengingana aðeins of duglega þannig að þeir fljúgi óvart úr greipum manns í átt að öðrum spilurum, ég bara spyr!
Það var aðeins eitt til ráða, ef lafði lukka neitaði að ganga mér á hönd yrði ég að slípa hæfni mína þar til hún yrði hárbeitt, þá yrði sigurinn minn. Ég hafði í gegnum belgískan pennavin minn, Flaurent Claasens komist á snoður um evrópskan Risk klúbb, skipaðan elítu evrópskra Riskspilara. Allir voru meðlimir klúbbsins fyrrverandi stórmeistarar og höfðu hlotið 5000 Lego stig eða meira á mótum ERA (European Risk Association). Flaurent Claasens kom mér í samband við Henning Kaj Albrechtsen, fimmfaldan Danmerkur meistara og bronsverðlaunahafa í Risk á Smáþjóðaleikunum 1983 en þá hafði hann lúxembúrgskt vegabréf. Þar kynntust hann og Flaurent Claasens einmitt en það er önnur saga sem verður að bíða betri tíma.
Flaurent Claasens, heiðursmaður og einn fremsti árulesari Belga í dag.
Í byrjun ágúst hélt ég til Danmerkur og með meðmælabréfi frá Flaurent Claasens tókst mér að komast á eitt af Risknámskeiðum herra Albrechtsens, en hann tekur aðeins að sér að kenna 3 nemendum í senn og aðeins þrjú tveggja mánaða námskeið á ári enda er hann orðinn 84 ára gamall. Ég get því miður ekkert sagt um námskeiðið þar sem ég skrifaði undir þagnareið og á yfir höfði mér málsókn ef ég tjái mig um innihald og kennslu á námskeiði herra Albrechtsens. Ég get þó sagt það að maðurinn er snillingur sem á engann sinn líka og skipar sér á sess með Stephen Hawkings, Bobby Fischer og Bobby McFerrin.
Albrecthsen á hátindi ferils síns á Smáþjóðaleikunum í Túrkmenistan 1983.
Námskeiðið er búið, ég er kominn til Íslands, spilakvöld hefur verið boðað. Allt er til staðar til að ég geti látið til skarar skríða og fengið langþráða hefnd mína og heimtað þá virðingu sem ég á skilið."
(Hefnd hins réttláta, 2005, e. Pál Guðbrandsson, útg. Mál og Menning)
Sunnudagurinn 2. október verður lengi í minnum hafður. Spilaklúbburinn Steingrímur hafði legið í dvala síðan ég hélt út á vit nýrra spilakvölda í Danaveldi, drengirnir höfðu aðeins haldið eitt spilakvöld eftir að þeirra ástkæri formaður yfirgaf klakann. Þar sem ég var nú aftur kominn heim var splæst í eitt spilakvöld. Hist var heima hjá Hilmari og var sá mikli heiðursmaður Hilmar eldri verndari og siðgæðisvörður kvöldsins. Maður kemur aldrei að tómum kofanum í Neshömrum 4 né að tómum borðunum þar, Hilmar bauð uppá guðaveigar og gos, fullt af nammi og galdraði fram poppskál fyrir Einar sem má ekki borða nammi sökum offituvandamáls síns. Allir voru mættir, spilaborðið lagt út og leikar hófust.
Ég fékk það göfuga verkefni að útrýma herjum Arons og Aroni sjálfum.
Eftir að hafa fryst þá herkænskuaðferð(e. strategy) í nokkurn tíma ákvað ég að setjast að í Ástralíu og byrjaði ég á að sigra Eyjaálfuna nokkuð örugglega og var ekki hreyft við herjum mínum þar það sem eftir lifði spils og fékk ég því alltaf að minnsta kosti 5 hermenn í upphafi hverrar umferðar. Hilmar hreiðraði um sig í Afríku og reyndi með veikum mætti að teygja sig upp til Evrópu og þótti með hreiðurgerð sinni í Afríku vera líklegur mjög og sterkur á velli. Einar var með aðgerðir í Norður- og SuðurAmeríku og Aron var með skærur hér og þar. Þar fór svo þannig að Aron leysti úr læðingi sannkallað leifturstríð gegn Einari að hætti Þjóðverja. Það mátti ljóst vera að Aron ætlaði sér að útrýma Einari og gekk það ágætlega nema að hann ofmat hernaðarstyrk sinn lítillega og hafði það ekki af að eyða Einari og skyldi eftir ansi strjálan herafla. Einar lifði árásina af og þegar hann var búinn að jafna sig tók við miskunnarlaus og grimmileg hefnd. Aron átti aldrei möguleika og murkaði Einar lífið úr hermönnum Arons og voru þeir margir hverjir skotnir í bakið á flóttanum. Eftir helför Einars höfðu markmið mín breyst, þar sem ég gat ekki lengur eytt Aroni var markmið mitt nú að ná 24 löndum. Einari fannst Hilmar orðinn of sterkur og stakk upp á samvinnu. Ég tók fálega í það og lét líta út fyrir að ég væri að einbeita mér að einhverjum óræðum álfusigurförum. Með þessu herbragði mínu tókst mér að halda markmiðum mínum leyndum og bruggaði ég launráð mín í friði og ró meðan Einar reyndi að halda aftur af vexti Hilmars. Síðan gerðist það. Ég safnaði upp myndarlegum her og hélt af stað. Löndin féllu eitt af öðru og fóru bylgjur sigra minna eins og höggbylgja atómsprengju yfir heiminn. Þetta var keðjuverkun sem ekki varð stöðvuð og innan skamms var sigur minn orðinn að veruleika, fyrsti sigur minn á Spilakvöldum Spilaklúbbsins Steingríms (The Dengsa Tour). Önnur eins herkænska hefur ekki sést og eru þeir félagar Einar og Hilmar sjálfsagt enn að klóra sér í hausnum. En svona mikilfenglegur sigur kallar á mikilfenglegan pistil og hér er hann kominn.
Nú halda drengirnir á Íslandi sjálfsagt spilakvöld tvisvar í viku til að eiga roð í mig þegar ég sný aftur um jólin og þá munu þau tíðkast breiðu spjótin.
Ég kveð að sinni, lifið heil.
<< Home